CV

Tinna Þorsteinsdóttir er konsertpíanisti með víðtæka reynslu á sviði nýrrar tónlistar og hefur frumflutt um 100 verk sem samin hafa verið sérstaklega fyrir hana. Hún vinnur náið með mörgum íslenskum tónskáldum, er liðtæk í tilraunatónlistarsenunni og hefur unnið að einleiksverkum með listamönnum eins og Helmut Lachenmann, Alvin Lucier, Christian Wolff, Peter Ablinger, Morton Subotnick, Cory Arcangel og Mme Yvonne Loriod-Messiaen.

Menntuð sem klassískur píanóleikari þá spilar Tinna allar aldir píanóbókmenntanna, þótt 21sta öldin sé hennar aðal ástríða. Undirbúið píanó, rafhljóð, dótapíanó, leikhúsverk og gjörningar rata gjarnan inn á efnisskrár hennar. Undanfarin ár hefur Tinna skapað innsetningar og ýmiskonar hljóð- og performansverk, þar sem efniviður eins og píanóhlutar, heilabylgjur hennar sjálfrar, heitt og kalt gler og raftónlist koma við sögu.

Helstu einleikstónleikar hennar hafa verið á Listahátíðinni í Bergen í seríunni Unge talenter 2006 í safni Edvards Grieg á Troldhaugen, Listahátíð í Reykjavík, Myrkum músíkdögum, Norrænum músíkdögum, Raflost raflistahátíðinni, ppIANISSIMO International Festival for Contemporary Piano Music í búlgarska ríkisútvarpinu, Autunno Musicale tónlistarhátíðinni í Capua, Ítalíu, Nordischer Klang listahátíðinni í Greifswald, Þýskalandi, Foundling Museum í London, The Chinese University í Hong Kong, GL Strand listasafninu í Kaupmannahöfn, Summit Club í Peking og Norrænu sendiráðunum í Berlín.

Af öðrum viðburðum má nefna dúóperformans á Bang on a Can maraþoninu í San Francisco. Einleik á Messiaen tónlistarhátíðinni í Stavanger. Einleik á Heimssýningunni – Expo 2010 – í Shanghai, þar sem Tinna lék í opinberri dagskrá forseta Íslands í Expo Center og í íslenska skálanum. Sama ár tók hún þátt í Íslandsfrumflutningi á stórvirkinu Vortex Temporum eftir Gérard Grisey ásamt The Formalist Quartet á Listahátíð í Reykjavík. Árið 2012 flutti hún öll Sonorities verk Magnúsar Blöndals Jóhannssonar fyrir einleikspíanó á Tectonics nútímatónlistarhátíðinni. Sama ár tók hún þátt í Íslandsfrumflutningi á Visions de l´amen eftir Olivier Messiaen fyrir tvö píanó á Listahátíð í Reykjavík. Árið 2017 frumflutti hún tvö verk ásamt Hong Kong New Music Ensemble.

Í samvinnu við aðrar listgreinar, þá kemur Tinna m.a. fram í vídeóverkinu Stjónarskrá lýðveldisins Íslands eftir myndlistartvíeykið Ólaf Ólafsson og Libiu Castro og Karólínu Eiríksdóttur, tónskáld, en það var sýnt á Feneyjartvíæringnum 2011. Tinna hefur í þrígang verið gestalistamaður við glergalleríið S12 í Bergen og vann þar fyrst glerpíanó- og performansverkið Cry Piano árið 2014 í samstarfi við glerlistakonuna Alli Hoag. Sama ár var hún sýningarstjóri myndlistar- og performanssýningarinnar Píanó á Listahátíð í Reykjavík, þar sem hún flutti Piano Transplants, gjörningaverk Anneu Lockwood m.a.

Af nýlegum viðburðum má nefna leik Tinnu á píanóverki Önnu Þorvaldsdóttur, Trajectories, inn á geisladisk hennar Aerial, er kom út hjá Deutsche Grammophon 2014. Tinna lék eitt aðalhlutverkanna í óperu Önnu Þorvaldsdóttur UR_ er frumsýnd var í Theater Trier 2015 og sama ár var Bylta, interaktíft hljóð- og performansverk með glerblæstri, eftir Tinnu og Alli Hoag frumflutt í Corning Museum of Glass, NY. Í kjölfarið var nýtt verk þeirra Sending, frumsýnt í Chrysler Museum of Art, á Glass Art Society Conference 2017 og UrbanGlass í New York. Verkið Shield, samstarfsverkefni Tinnu og Æsu Bjarkar, glerlistakonu, innsetning með gleri, vídeói og hljóðum úr heilabylgjum, var frumsýnt á tvíæringnum European Glass Context í Bornholm 2016. Ný útgáfa verksins; Shield II, var einkasýning í S12 árið 2018. Shield II vann aðalverðlaunin eða ‘Grand Prize’ á þríæringnum Toyama International Glass Exhibition 2018 og var sýnt í Toyama Glass Art Museum í Japan og er nú hluti af safneigninni. Verkið er nú til sýnis í annað sinn í Toyama Glass Art Museum fram til 7. júní 2020. Nýjasta verk þeirra, Shield III, var sýnt í Feneyjum meðan á 58. Tvíæringnum stóð 2019, sem hluti af samsýningu Karuizawa New Art Museum – Feneyjardeild, á Markúsartorgi.

Einleiksdiskur Tinnu, Granit Games, með íslenskri píanótónlist kom út hjá Smekkleysu árið 2007 og er fáanlegur á Spotify.

Tinna er stofnandi og annar listrænna stjórnenda listahátíðarinnar Cycle og verður listrænn stjórnandi Norrænna músíkdaga er verða haldnir á Íslandi 2021.

Hún hlaut Menningarverðlaun DV í flokki tónlistar árið 2013.

Tinna stundaði nám í Hannover og Münster í Þýskalandi og síðar í Boston við New England Conservatory of Music hjá Stephen Drury, þaðan sem hún lauk Graduate Diploma. Hún hlaut Fulbright styrk og Thor Thors styrk frá The American-Scandinavian Foundation. Tinna hefur tekið þátt í fjölda námskeiða og sótt einkatíma hjá píanóleikurum eins og Yvonne Loriod-Messiaen, Peter Hill, Håkon Austbø, Steffen Schleiermacher, Pierre Réach og hjá Ensemble Modern Academy. Hún stundaði einnig nám í raftónlist. Tinna er með mastersgráðu í ráðstefnutúlkun frá Háskóla Íslands og starfar einnig sem slíkur.

Tenglar:
Shield I-III: samvinnuverkefni Tinnu og Æsu Bjarkar, glerlistakonu
Bylta – hljóð- og performansdúó Tinnu og Alli Hoag með glerblæstri
Cycle listahátíð

Myndaréttur: Rafael Pinho