Píanó: myndlistar- og performanssýning

Tinna var sýningarstjóri myndlistar- og performanssýningarinnar Píanó á Listahátíð í Reykjavík árið 2014 í Listasafni Íslands. Um viðamikla sýningu var að ræða þar sem fjöldi listamanna áttu verk, tónskáld, myndlistarmenn, dansarar o.fl. Sýningardjásnið var verk Dieters Roth og barna hans ‘Keller Duo’ (1980-89) sem fengið var að láni hjá Dieter Roth Foundation, Hamborg og Dieter Roth Estate, Basel. Verk áttu: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Björn Roth/Dieter Roth/Vera Roth, Einar Torfi Einarsson, Einar Roth/Oddur Roth/Björn Roth, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, Jón Egill Bergþórsson/Sveinbjörn Gröndal, Margrét Bjarnadóttir, Nikulás Stefán Nikulásson, Páll Ivan frá Eiðum, Rafael Pinho. Gjörningar: Einar Torfi Einarsson/Tinna Þorsteinsdóttir, Margrét Bjarnadóttir, Páll Ivan frá Eiðum, Sveinbjörn Gröndal o.fl. Tinna flutti þrenn performansverk úr Piano Transplants (1968-82/2005) eftir Anneu Lockwood dreift yfir árið 2014 fyrir opnun sýningarinnar. Þeir voru: Piano Burning, Piano Garden og Southern Exposure. Teknar voru af þeim ljósmyndir er prýddu þrennar forsíður kynningarrits Listahátíðar sem og annað kynningarefni. Ljósmyndirnar tók Rafael Pinho. Gjörningurinn Piano Burning var tekinn upp sem vídeóverk og var það í höndum Davids Oldfield.

Úr formála sýningarskrár/texti eftir Tinnu Þorsteinsdóttur:

Píanóið hefur gegnt óendanlega mörgum hlutverkum í tímans rás og á sér litríkan, sögulegan bakgrunn. En hvert er hlutverk píanósins í dag? Hvað dettur okkur fyrst í hug þegar við hugsum um píanó? Þótt svörin séu fjölbreytileg og persónubundin er víst að píanóið hefur átt sér samastað sem stofustáss á ótal heimilum í gegnum aldirnar. Píanóið, sem einnig hefur gegnt hlutverki stöðutákns, er vafalítið vinsælasta hljóðfærið til heimilisbrúks og varð sem slíkt sífellt algengara á millistéttarheimilum í Evrópu. Á tyllidögum safnaðist fjölskyldan saman við píanóið og tók lagið og fyrir tíma grammófónsins fundu nýjustu sönglögin og tónverkin sér farveg manna í millum. Hluti af menntun heimasætunnar fór fram við píanóið og þótti ekki verra ef hún hafði fallega söngrödd við. Píanóið varð þannig órjúfanlegur hluti af ásýnd heimilisins. Okkur þykir vænt um píanóið. En það stendur einnig fyrir svo ótal margt annað. Píanóið er stór gripur sem borin hefur verið virðing fyrir, ekki bara sem hljóð- og gleðigjafa eða jafnvel húsgagni, heldur líka sem efnahagslegum grip. Smíði hljóðfærisins getur tekið mörg ár. Viðurinn er valinn af kostgæfni og þá hefst smíðaferlið og ótal þættir koma saman. Fagkunnáttan, samruni handverks og vísinda efna- og eðlisfræði sameinast í galdrinum, því hvert píanó er einstakt. Þótt smíði hljóðfærisins sé unnin af vísindalegri nákvæmni eru engin hrein og bein vísindi sem segja nákvæmlega fyrir um það hvernig píanóið mun hljóma þegar smíðaferlinu er lokið. Þannig lærum við að þekkja persónulegan hljóm hvers hljóðfæris fyrir sig. Píanóið verður lifandi persóna sem getur fylgt okkur alla lífsleiðina og böndin verða sterk, eins og um náinn fjölskyldumeðlim sé að ræða. Börn læra á hljóðfæri á unga aldri og eitt píanó getur átt sér sögu óteljandi puttaáslátta og þolinmæðisstunda. Þannig myndast órjúfanleg tengsl tíma og hljóðfæris. Píanóið er dýrmætt; viðurinn, fílabeinið sem var, málmurinn, strengirnir og hamrarnir stinga í augu þegar horft er til vistkerfis náttúrunnar í dag. Gjörningar, þar sem píanó hefur verið algengt viðfangsefni eyðileggingar, vekja jafnvel ómeðvitað upp efasemdir um réttmæti sóunarinnar, því hljóðfærið er táknrænt í allri sinni dýrð. Tákn um upphafningu mannsandans og hápunkt borgaralegs samfélags, snilligáfunnar, en á sama tíma einfaldleika laglínunnar og hljómanna, sem geta líka fangað hið tæknilega krefjandi út að mörkum mannlegrar getu. Á sama tíma getum við öll nálgast píanóið á mjög svo ínáanlegan hátt. Píanóið er í raun allsstaðar í kringum okkur, við ýtum bara á takkann og tónninn krefst engra málalenginga.
Á þessari sýningu er leitast við að skoða píanóið í samfélagi nútímans. Ef leitað er út fyrir hljómborðið kemur margt í ljós og píanóið er uppspretta nýrra sjónarhorna og tilvalið í allsherjar könnunarleiðangur, kannski um okkur sjálf. Það er einmitt það sem gerist, listamennirnir skoða mismunandi hliðar hljóðfærisins og nýta í sköpun sína. Píanóið birtist í formi skúlptúrs, formið er kannað, verkfræðin, hljóðgjafinn, efniviðurinn, umhverfið og háttalag. Farið er inn á svið gjörninga, leikhúss, tónverka og myndverka.

Sérstakar þakkir eiga skildar uppsetningarteymi sýningarinnar: Björn Roth/Einar Roth/Oddur Roth ásamt fleirum og Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík 2014, ásamt stórum hópi einstaklinga og fyrirtækja sem lögðu hönd á plóg.

This post is also available in: English