IMG_5317

CV

Tinna Þorsteinsdóttir er með víðtæka reynslu á sviði nýrrar tónlistar og hefur frumflutt um 80 píanóverk sem samin hafa verið fyrir hana síðastliðin ár. Hún vinnur náið með mörgum íslenskum tónskáldum, er liðtæk í tilraunatónlistarsenunni og hefur unnið að einleiksverkum með listamönnum eins og Helmut Lachenmann, Alvin Lucier, Christian Wolff, Peter Ablinger, Morton Subotnick, Lars Graugaard, Cory Arcangel og Mme Yvonne Loriod-Messiaen.

Menntuð sem klassískur píanóleikari þá spilar Tinna allar aldir píanóbókmenntanna, þótt 21sta öldin sé hennar aðal ástríða. Undirbúið píanó, rafhljóð, dótapíanó, leikhúsverk og gjörningar rata gjarnan inn á efnisskrár hennar. Undanfarin ár hefur Tinna skapað ýmiskonar hljóð- og performansverk og er einnig liðtækur spunalistamaður.

Helstu einleikstónleikar hennar hafa verið á Listahátíðinni í Bergen í seríunni Unge talenter 2006 í safni Edvards Grieg á Troldhaugen, Listahátíð í Reykjavík, Myrkum Músíkdögum, Raflost raflistahátíðinni, ppIANISSIMO International Festival for Contemporary Piano Music í búlgarska ríkisútvarpinu, Autunno Musicale tónlistarhátíðinni í Capua, Ítalíu, Nordischer Klang listahátíðinni í Greifswald, Þýskalandi, Foundling Museum í London, The Chinese University í Hong Kong, GL Strand listasafninu í Kaupmannahöfn, Summit Club í Peking og Norrænu sendiráðunum í Berlín.

Af öðrum viðburðum má nefna dúóperformans á Bang on a Can maraþoninu í San Francisco. Einleik á Messiaen tónlistarhátíðinni í Stavanger. Einleik á Heimssýningunni – Expo 2010 – í Shanghai, þar sem Tinna lék í opinberri dagskrá forseta Íslands í Expo Center og í íslenska skálanum. Sama ár tók hún þátt í Íslandsfrumflutningi á stórvirkinu Vortex Temporum eftir Gérard Grisey ásamt The Formalist Quartet á Listahátíð í Reykjavík. Árið 2012 flutti hún öll Sonorities verk Magnúsar Blöndals Jóhannssonar fyrir einleikspíanó á Tectonics nútímatónlistarhátíðinni. Sama ár tók hún þátt í Íslandsfrumflutningi á Visions de l´amen eftir Olivier Messiaen fyrir tvö píanó á Listahátíð í Reykjavík.

Í samvinnu við aðrar listgreinar, þá kemur Tinna m.a. fram í vídeóverkinu Stjónarskrá lýðveldisins Íslands eftir myndlistartvíeykið Ólaf Ólafsson og Libiu Castro og Karólínu Eiríksdóttur, tónskáld, en það var sýnt á Feneyjartvíæringnum 2011. Árið 2014 var Tinna gestalistamaður við glergalleríið S12 í Bergen og vann glerpíanó- og performansverkið Cry Piano í samstarfi við glerlistakonuna Alli Hoag. Sama ár var hún sýningarstjóri myndlistar- og performanssýningarinnar Píanó á Listahátíð í Reykjavík, þar sem hún flutti Piano Transplants, gjörningaverk Anneu Lockwood m.a.

Af nýlegum viðburðum má nefna leik Tinnu á píanóverki Önnu Þorvaldsdóttur, Trajectories, inn á geisladisk hennar Aerial, er kom út hjá Deutsche Grammophon 2014. Tinna lék eitt aðalhlutverkanna í óperu Önnu Þorvaldsdóttur UR_ er frumsýnd var í Theater Trier 2015 og sama ár var Bylta, interaktíft hljóð- og performansverk með glerblæstri eftir Tinnu og Alli Hoag frumflutt í Corning Museum of Glass, NY.

Fyrsti einleiksdiskur Tinnu, Granit Games, með íslenskri píanótónlist kom út hjá Smekkleysu árið 2007.

Tinna er stofnandi og einn listrænna stjórnenda listahópsins Jaðarber og er annar listrænna stjórnenda listahátíðarinnar Cycle.

Hún hlaut Menningarverðlaun DV í flokki tónlistar árið 2013.

Tinna stundaði nám í Hannover og Münster í Þýskalandi og síðar í Boston við New England Conservatory of Music hjá Stephen Drury, þaðan sem hún lauk Graduate Diploma. Hún hlaut Fulbright styrk og Thor Thors styrk frá The American-Scandinavian Foundation. Tinna hefur tekið þátt í fjölda námskeiða og sótt einkatíma hjá píanóleikurum eins og Yvonne Loriod-Messiaen, Peter Hill, Håkon Austbø og Pierre Réach.

Tenglar:

Bylta – interaktíft hljóð- og performansverk með glerblæstri: www.bylta.weebly.com
Cycle listahátíð: www.cycle.is
Jaðarber listahópur: www.jadarber.is

This post is also available in: English