Dótapíanósagan á Myrkum músíkdögum

DÓTAPÍANÓSAGAN / Myrkir músíkdagar 2020 / 1. feb. / 15:00 / Kaldalón, Hörpu

Á þessum tónleikum stiklar Tinna á stóru og smáu í dótapíanótónlistarsögunni á tónleikum fyrir krakka og fjölskyldur þeirrra. Verk eftir íslensk og erlend tónskáld verða skoðuð í sögulegu samhengi og brugðið á leik! Rafmagn og hreyfimyndanótnaskrift koma við sögu og sérstakur gestur er Frank Aarnink slagverksleikari. Verk eftir John Cage, Hallvarð Ásgeirsson, Þórunni Grétu Sigurðardóttur, Gunnar Karel Másson, Juliu Wolfe, Bach bróðir, Atla Heimi Sveinsson, Jónas Tómasson, Guðmund Stein Gunnarsson og Ingibjörgu Friðriksdóttur.

Tónleikarnir eru hluti af Myrkrabörnum, samtímatónlistarhátíð fyrir börn. Hátíðin er haldin samhliða Myrkum músíkdögum og er ætluð börnum á öllum aldri. Aðgangur er ókeypis.
Kaldalón er staðsett á fyrstu hæð í Hörpu og er stæði fyrir hjólastóla á aftasta bekk í salnum.

Um Tinnu Þorsteinsdóttur
Tinna hefur komið að og staðið fyrir nokkrum barnatónleikum ásamt Guðrúnu Hrund, víóluleikara og vinkonu sinni, m.a. með Kammersveit Reykjavíkur á Barnamenningarhátíð 2013 og 2018 komu þær fram á fjölskyldutónleikum í Salnum í Kópavogi þar sem þátttökuverkið “Haglhlífin hans Bachs” og tónverk eftir krakka úr hópi áheyrenda hljómuðu. Þær stóðu fyrir vinnustofu með nemendum í Vesturbæjarskóla, þar sem afrakstur vinnunnar heyrðist á Myrkum músíkdögum á tónleikum 2019. Svo hefur Tinna kynnt nýja tónlist fyrir nemendum á TUF, tónlistarhátíð unga fólksins í Kópavogi og í Krakkamengi á tónleikastaðnum Mengi. Hún er konsertpíanisti og hefur einstaklega gaman að nýrri tónlist og hefur frumflutt aragrúa píanóverka.
MMD